Tuesday, September 25, 2012

Í kvöld er haustið vinur minn

Sé það núna að þegar það er komið svona mikið myrkur úti er gott að vera búin að byrgja sig upp af kertum! Í öllum heimsins regnbogalitum í þokkabót, ekki slæmt


Eftir marga statusa á facebook í kvöld um hve yndisleg haustið er.. ..þá er ég sammála!


 ..en bara í kvöld! 

Ég er lítil haustmanneskja, ég finn hvernig veturinn er hægt að rólega að koma sér fyrir og finn kuldan læsa sér allstaðar inn í litla kroppnum, ekki gott. 

En í kvöld er haustið gott, því ég var að enda við að klára að baka þessar súkkulaðimúffur:) 




Ingólfur þurfti að hlaupa út á æfingu og því henti ég saman í einhvern kvöldmat fyrir okkur. Ákvað að bæta kallinum það upp þegar hann kæmi af æfingu. (Mér finnst ég alveg ótrúlega góð í að setja fram hve yndisleg ég er við kallinn minn og ná þannig að fela fyrir lesendum mínum að í raun og veru er ástæða baksturins löngun mína í súkkulaði þessa stundina, eða svona næstum því!)

Gott að hvíla sig eftir mikinn lærdóm síðustu daga, hafa það svolítið huggulegt undir teppi með sínum heitelskaða, horfa á smá video og gæða sér á þessum súkkulaðimúffum:)

Wednesday, September 19, 2012

Mín leið..

Þegar ég var barn tók ég ákvörðun, eflaust sömu ákvörðun og flest öll börn taka:


 ,,þegar ég verð stór ætla ég ekki að drekka" 

Ég hinsvegar, gerði það sem að mörg börn gerðu ekki, ég hef staðið við mína ákvörðun og þar með staðið með sjálfri mér.



Eins asnalega og það getur hljómað fyrir manneskju sem drekkur ekki að þá hefur áfengi mótað lífið mitt verulega. Ég er uppkomið barn alkahólista og systir fjögurra slíkra. Í minni fjölskyldu eru vandarmálin rædd og borin virðing fyrir þeim sjúkdóm sem alkahólismi er, og fyrir það er ég ævinlega þakklát. Við fjölskyldan höfum fengið að sjá slæmu hliðar fíknsjúkdóma og þess vegna tók ég mína ákvörðun - mér fannst áfengi ekki áhættunar virði.

En þessi ákvörðun hefur ekki alltaf verið auðveld, það er rosalega erfitt að reyna að vera eitthvað örlítið öðruvísi í heimi sem er stöðugt að gera okkur öll eins. Mig langaði að virða lögin og fara eftir þeim, hugsaði að þau væru sett af ástæðu. 

Það var erfitt að segja milljón sinnum nei, að láta þvinga upp í sig áfengi (bókstaflega), að vera ekki boðið með, að fólk vildi ekki umgangast mann .. (við fáum nú öll að kynnast unglingsárunum og hinum yndislega hópþrýsting) - en í dag er ég svo miklu sterkari fyrir vikið. 


Ég er svo 100% sátt og hamingjusöm með mína ákvörðun og ég tel að hún hafi auðveldað líf mitt mikið hingað til. Ég myndi óska þess að það væri borin meiri virðing fyrir henni og þeirra sem velja sér þessa leið. Því við, eða allavega ég, ber virðingu fyrir akkúrat hinni ákvörðuninni.

Skrítið hvernig einhver silly vökvi, eins og áfengi getur mótað allt lífið manns; út af því fæ ég að lifa vímuefnalausu lífi, kynntist þess vegna mörgum af mínum bestu vinum sem ákváðu það sama og ég, ég fór í Ungmennaráð UMFÍ og þaðan kom kveikjan á besta hugsanlega náminu fyrir mig = tómstunda- og félagsmálafræði í HÍ (með held ég bara mestu snillingum landsins!)



Ég er spennt fyrir framhaldinu:)


Kveðja, Sigríður Etna

Monday, September 17, 2012

Ekki alltaf endalaus hamingja..


Maður veit nú varla hvort maður þori að skrifa meira í bili.. fannst pínu eins og ég stæði nakin fyrir framan alheiminn eftir síðustu færslu. Það kíktu 400 manns á bloggið, mörg komment og hitti nokkra sem töluðu um hve mikið þeir hefðu hlegið.


Ég skreið pínulítið inn í skel, eitthvað svo sperhrædd.. get ekki verið svona obboslega sniðug tvisvar í röð, það er of mikið fyrir þennan litla heila og ekki fer ég aftur í spinning til að lýsa en svakalegri reynslu!

..en hver fýlar ekki örlitla athygli? 



Átti svolítið skrítinn dag, einn af þessum dögum þar sem er smá hnútur í maganum. 

Ef maður grefur aðeins ofaní þá finnur maður samt alltaf ástæðuna.. pælir smá í því og lagar. Ég gerði það allavega í dag og bætti við þá uppskrift að fara í nudd.. og gufu.. þvílíkur galdur - virkaði fullkomnlega:)

Er svo mikið að meta veðrið þessa dagana!

Kv. Sigríður Etna

Saturday, September 15, 2012

Ó boy, það gerðist aftur! 

Skvísunni hefur gengið svaka vel í að mæta í ræktina og borða aðeins minna af súkkulaði en vanarlega. Vaknaði greinilega með ofurmetnað og í miklu bjartsýniskasti í morgunn! Var ekki lengi að rífa mig frammúr þegar Ingólfur bað mig um að koma með sér í spinning.

Ég gleymdi í smá stund hversu ótrúlega misþyrmandi mér finnt spinning vera. Ég áttaði mig á því um leið og ég settist á hnakkinn á hjólinu - ónei, hér á ég ekki að vera. Þarna sat ég, ásamt 40 öðrum geðsjúklingum sem eru eins og ég, greinilega haldnir einhverri sjálfseyðingarhvöt. 

Ég hlyti að geta klára þennan 45 mínútna tíma! Gékk frekar hægt þar sem ég leit á klukkuna á 1 mínútna fresti, nema þegar það kom sprettur, þá sá ég ekki klukkuna þar sem brjóstin voru fyrir, hossandi einhverstaðar á milli naflans og ennisins. Svo leið klukkutími, hætt að finna fyrir rassinum, aldrei stoppaði brjálæðið og 1/3 af hópnum búinn að gefast upp. Þá heyrist ,,bara hálftími eftir" .. Sigríður, lofaðu sjálfri þér að fara aldrei aftur inn í þennan sal!


.. 90 minutes in hell .. 

Ekki skánuðu hlutirnir þegar ég leit til hægri og sá betri helminginn minn brosandi út á eyrum, sveitari en allt, hlíðandi hverri einustu skipun (svo vel upp alinn þessi elska!), með hjólið í botni, segjandi ÚAÚA á móti kennaranum í takt við hópinn. ..Greinilegt að við erum svart og hvítt!

Ég held að það fljúga aldrei jafn margar neikvæðar hugsanir í gegnum huga mér eins og þegar ég er í spinning. Þegar fæturnir fara að svíða, þá þoli ég ekki kennarann. Kennarinn, sem er jafn hress og Jónsi í Svörtum fötum x 5 á einhverjum ólöglegum efnum, öskrandi JÍÍÍHAAA og ÚAÚA - meikaðaekki!

Kennarinn var reyndar sætur.. og fékk smá virðingu frá mér þegar hún spilaði Lauryn Hill, sú virðing fór reyndar eftir nokkrar sekúndur, þegar hún gékk á milli og hækkaði styrkleikann á hjólunum, damn it!

Versta var, þegar ég steig niður af hjólinu, líkaminn í klessu og ofurstolt af sjálfri mér,  - ég er duglegust í heimi! - Þá var gellan hliðiná mér komin ca. 5 mánuði á leið, og sú hefði ábyggilega geta hlupið hálft maraþon eftir tímann hún var svo hress.

Lærdómsríkur dagur, prufa þetta kannski aftur.. eftir ár, kannski.

Sigríður Etna
spinningmeistari!

Thursday, September 13, 2012

Þakklæti

Þetta er einn af þessum dögum sem er svona eeghhhh bahh!!

Enginn dagur er sem betur fer eins og ég held að maður þurfi að fá nokkra svona "downhill"daga þar sem lítið gerist svo hinir dagarnir geti verið skemmtilegir.

Svona á haustin og á köldum vetradögum langar manni stundum (kannski örsjaldan, en þið skiljið..) bara að dagurinn sé cancelaður, hoppa upp í rúm og eiga kósí dag heima, - allavega á ég það til að upplifa þá tilfinningu.

Þegar dagarnir manns eru ekki eins litríkir og maður myndi vilja hafa þá og maður hálf andlaus að þá finnst mér mikilvægt að sökkva sér ekki í einhverjar hugsanir og ofurpælingar. Ég á það pínu til að fara velta mér uppúr því af hverju það sé ekkert að gerast, af hverju allt er alltaf eins (sem það er auðvitað ekki!).

Á hverjum degi, stundum oft á dag og allavega áður en ég fer að sofa þá fer ég yfir hluti sem ég er þakklát fyrir í lífinu, það gerir mig mjög hamingjusama. Sumum myndi e.t.v. finnast ég gera of mikið af því, kannski...

...Ég þakka fyrir alla heimsins hluti, hluti sem maður tekur sem sjálfsögðum hlutum, t.d. að eiga þak yfir höfuðið, mat í ískápnum, fjölskyldu og vini og svo bara hlutum sem gerast yfir daginn, að hafa orku til að mæta í ræktina, hvað mér gekk vel að læra, hvað ég átti gott spjall við einhvern - frekar einfalt eitthvað.

Ef maður prufar, þá er ég viss um að allir geti fundið marga hluti til að vera þakklátir fyrir. Mæli með því, því ég trúi að það gerir mann truly hamingjusaman í lífinu:)

Tuesday, September 11, 2012

Það er gott að sleppa takinu á hlutum sem maður stjórnar ekki

Mæli með að þú prufir það líka:)

Sunday, September 9, 2012

Vakna freshfresh..

Átti yndislega helgi!

*Ég fór ekki eftir klukkunni 
*Ég trítaði mig og keypti mér fallegt
*Tók daginn snemma og var ekki að rembast að fara seint að sofa ÞÓTT það væri helgi 
(fólk á það nefnilega svolítið til að gera það, ,,það er föstudagur, ég þarf ekki að vakna snemma á morgunn, verð að vaka aðeins lengur" - ó hvað við getum verið skondin)


*Ég kláraði og gekk frá persónulegum hlutum sem hafi hangið yfir mér í um það bil í 1 og hálft ár. 

*Ég var góð við mína, þakklát og glöð í hjartanu.


Smá skilaboð fyrir vikuna:

Slakaðu á!
Þú ert nóg!
Þú átt nóg!
Þú gerir nóg!



Ykkar, Sigríður Etna

Nývöknuð, kát og náttúruleg






Thursday, September 6, 2012

Góðar hafrakökur

Hún Aníta, stóra systir Ingólfs er alveg ótrúlega myndarleg húsmóðir. Hún býr til þessar svakalega góðu hafrakökur og ég var svo heppin að fá þessa frábæru uppskrift hjá henni um daginn:

Gott að byrja á því að finna stóran pott! 


Uppskriftin í heild sinni:

200 gr. smjör
140 gr. hnetusmjör
160 gr. hrásykur
50 gr. múslí
2 stór egg
1 tsk vanilludropar
200 gr. döðlur
200 gr. haframjöl
120 gr. spelt
1 tsk. matasódi
1/4 tsk. salt

Smjör, hnetusmjör og hrásykur brætt saman við vægan hita:


Svo setur maður múslí ofaní pottinn og lætur bíða í smá tíma

(Skvísan klikkaði alveg á myndinni)


 Hræra eggin +  1 tsk. vanillu saman við sykurinn, hnetusmjörið og smjörlíkið, með sleif


Síðan setur maður restina útí: döðlur, haframjöl, spelt, matarsóda og salt



Þá lítur þetta einhvernveginn svona út:



Ég gerði 15 stórar kökur úr deiginu:



Bauð svo mömmu, pabba, Ragga og Töru í smá kvöldkaffi:)



Ég bjó til svolítið stórar kökur, þurfa ca. 15-20 mín við 180°. 

Eins góðar og kökur geta verið þegar þær koma beint út úr ofninum að þá er líka ótrúlega gott að frysta þessar kökur og borða þær kaldar:)


Sigríður Etna

Wednesday, September 5, 2012

Woopwoop

Loksinsloksins! 

Keypti mér 10 mánaðarkort í World Class í dag!


Var svo mikið veik síðasta vetur, náði lítið að gera og hef sjaldan verið jafn ósátt í eigin líkama. Mikið obboslega gerir sykur mann þreyttan!


Hlakka til að prufa nýja tíma. Ætla að vera dugleg að mæta í opnu tímana, fara í gufu og njóta þess að vera til:)


Það er svo gott þegar maður hugsar smá útí hvað maður borðar og hreyfir sig reglulega, þá sefur maður svo vel og allt gengur einhvernveginn betur.


Við eigum bara einn líkama og hann á skilið að við komum vel fram við hann!

Sigríður Etna

Tuesday, September 4, 2012

Litla krúttlega "stellið" mitt

Ég er svo heppin að eiga fjórar yndislegar eldri systur. Ég hef lært ýmsilegt af hverri þeirra og fengið tækifæri á að "stela" einhverjum af hugmyndum frá þeim. 


Er það ekki annars það sem yngri systkini gera - að apa eftir?

Dúdda systir fékk þá frábæru hugmynd að safna tebollu og það skemmtilega við það er að enginn þeirra er eins. 

Mér leist svo vel á þessa hugmynd að ég ákvað að gera eins og hef því verið að safna bollum í sumar. Á núna  þetta myndarlega sett, eða svona næstum því sett, skvísan er komin með sex gordjöss stykki!

Bjútí! - keyptur á sölubás á sjómannadeginum í Grindavík

SigríðarEtnuprinsessubollinn - fyrsti bollinn minn, sem Ingólfur gaf mér:)


Hr. yndislegur - mikið skotinn í þessum!


Keyptur í antíkbúð


Smá mix and match! Fílettasvomiiiikið! 


Keyptur í antíkbúð


Nýbúin að kaupa þennan, í Fríðu Frænku


Þessi var keyptur á sölubás á sjómannadeginum í Grindavík:)


Litla tebollafjölskyldan .. mússímúss

Held að fjölbreytni sé málið!

Langar ekki örugglega öllum í gott kakó/te/kaffi úr svona dúllubollum:)?

Sigríður Etna

Monday, September 3, 2012

Teboð

Mamma og pabbi fluttu úr æskuheimili fjölskyldunnar fyrir tæpu ári síðan. Dúdda systir bjó áfram í húsinu en núna í sumar var farið yfir svolítið magn af dóti og allir þurftu að taka sitt. Það fannst hellingur af leikföngum, enda safnast eflaust mikið af þeim þegar mörg börn eru á einu heimili. Sumu var hent á meðan annað fékk að vera áfram ofaní kassa og bíður eftir betri tíma, þar til það verður notað aftur. Það var ágætlega mikið af dóti sem fékk að fljóta með mér í Reykjavík og er í geymsluni minni, dúkkuföt, barbí og einnig yndislega barnatestellið mitt:

Það sést reyndar ekki á myndunum hvað það er obboslega lítið

Þetta stell var mikið notað og bauð ég allskonar fólki í kaffi .. aðallega ímynduðu kannski - en það er bara betra!


Kannski er þessi "bollastellsárátta" en eitthvað sterk í manni, að vilja gera fínt og bjóða upp á eitthvað gott úr fallegu stelli - bæði ímynduðum og óímynduðu vinum sínum;)

Á morgunn sýni ég ykkur svo supersised stell! - alvöru!


Sigríður Etna

Sunday, September 2, 2012

Ný gjöf..

Ég elsk'ann!..

..En mikið rosalega er ég feimin við hann!

Ég horfi á hann, tek hann upp, opna hann, horfi aðeins betur og legg hann niður aftur.

Ég er ansi hrædd um að ég þurfi að fara að læra á betur á þetta tæki.
Sigríður Etna