Það spyrja mig ótrúlega margir núna hvort mér leiðist mikið að vera svona ein heima. Svarið er alltaf nei. Guð minn, ég hefði gefið margt fyrir það að fá að leiðast síðustu önnina mína í háskólanum, þegar maður var í 100 prósent námi, að skrifa þessa blessuðu B.A.-ritgerð og að vinna helling með.
Mér finnst það heldur ekki skipta neinu máli ef mér myndi leiðast, því ég held að það sé í alvörunni hollt og alls ekki það versta í stöðunni. Hvernig er hægt að leiðast í dag? Bilað úrval af sjónvarpsþáttum, get púslað, föndrað, farið í heimsóknir og tala nú ekki um hið þægilega internet, ah, maður gleymir sér tímunum saman að skoða misgáfulega hluti.
Þegar ég var 18 ára byrjaði ég í al-anon. Þá breyttist lífið mitt svo sannarlega til hins betra, finnst ég varla sama manneskja fyrir og eftir að hafa kynnst þessum samtökum. Eitt það mikilvægasta sem al-anon kenndi mér voru að læra öll orðin yfir tilfinningar. Áður kunni ég bara örfá, glöð, pirruð, reið... í dag nota ég mörgmörg orð yfir tilfinningar mínar og ég elska það. Kryfja tilfinninguna sem maður finnur inní sér til mergjar.
Að vera einmanna. Ég held að við getum auðveldlega ruglað því saman við að leiðast. Að finna til einmannaleika er ekki góð tilfinning. Fyrir manneskju sem þrífst á að tala við aðra og eiga virk samskipti er eiginlega vont að vera einmanna. Maður fúnkerar bara ekki almennilega. En á móti þarf maður kannski ekki mikið til að "sleppa við" einmannaleikan. Guð sé lof fyrir snapchat, facetime og allt þetta sniðuga tæknidót, sem færir mann vissulega nær fólki.
Það er vont að vera einmanna, en á móti elska ég þegar maður er aleinn með sjálfum sér og finnur einmitt ekki vott af einmannaleika - bara fullkomið jafnvægi.
Annað sem al-anon kenndi mér og það er að lifa einn dag í einu. Þegar maður finnur einhvern vott af einmannaleika er einmitt gott að minna sig á að klára bara þennan dag og reyna að gera það besta úr honum.
..Og auðvitað endar maður þetta á slóðinni www.al-anon.is/ - en ég hvet fólk til að kynna sér samtökin og prufa að kíkja á fund:)
No comments:
Post a Comment