Tuesday, July 31, 2012

Listin "að gera ekki neitt"


Hvað er að gera ekki neitt?

Það er eitthvað sem ég átti einu sinni rosalega erfitt með, áður en ég fór að taka smá til hjá sjálfri mér og reyna að láta mér líða aðeins betur í litla hjartanu mínu.

Síðasta sunnudag vaknaði ég við það að Ingólfur spurði mig hvort "við gætum gert ekki neitt yfir daginn". En ég er kannski ekki neitt sérstaklega góð í því. Mér finnst nefnilega eins og ég verði að nýta allan minn lausa tíma til fulls, þ.e. tímann sem fer ekki í vinnu og skóla og þá sérstaklega á sumrin. Mér finnst eins og maður verði að fara í sund, í berjamó, labba upp á fjall, út að labba, hjóla, hlaupa, fara í heimsóknir, baka, elda eitthvað gott, hekla o.s.frv.

Það var eiginlega ekki fyrr en í byrjun síðasta hausts þegar ég byrjaði í Háskóla Íslands og kennarinn minn Vanda Sigurgeirsdóttir sagði mér að eitt það besta sem hún gerði væri að gera ekki neitt. Ég átti smá bágt með að trúa því þar sem ég held að hún sé uppteknasta manneskja sem ég þekki. Það var samt ekki fyrr en hún sagði þetta að ég fór að hugsa minn gang, að kannski leyfir maður sér ekki nógu mikið að "gera ekki neitt". Einnig lét það mig hugsa að ef hún hefði tíma til að leyfa sér þetta að þá hlyti ég að geta fundið mér tíma til þess líka. Mér finnst eins og það séu einhvernveginn allir alltaf alveg á milljón og allt á svo miklum hraða. Ég held reyndar líka að maður geti ekki „gert ekki neitt“ ef manni líður ekki vel í hjartanu, að þá eigi maður erfitt að vera bara rólegur með sjálfum sér.

Ég mæli með og held að við eigum flest stundum skilið að gera nákvæmlega ekki neitt! Sérstaklega við sem eru smá svona í stressaðri kantinum;)

Annars ætla ég nú rétt að vona að ég muni koma til með að hugsa betur um framtíðarbarnið mitt heldur en þetta blogg, því lítið hefur gerst hér inni í þó nokkurn tíma. Ég er aðeins búin að vera að dúlla mér og prufa mig áfram í stillingunum. Alltaf lærir maður eitthvað nýtt!


Kveðja, Sigríður Etna

No comments:

Post a Comment