Þegar ég var lítil stelpa spurði ég mömmu af hverju við værum ekki rík. Hún svaraði mér að við værum mjög rík, að hún og pabbi væru ein ríkasta fjölskyldan á Tálknafirði, því þau ættu svo ótrúlega mörg börn. Ég játa það núna að ég skildi hana ekki alveg, en var þó pínu stolt af því að vera í einni ríkustu fjölskyldu bæjarins. Í dag skil ég mömmu betur, meira segja 100%. Þó ég hafi ekki alveg skilið hana í þetta skipti og önnur skipti líka, þá trúið ég alltaf öllu sem hún sagði og tók því oft mjög bókstaflega. Hún skammaði mig t.d. einhvertímann þegar ég sagði henni frá því að við stelpurnar í bekknum nudduðum endalaust af sápunni sem var í dúnknum í íþróttarhúsinu á magann á okkur og skúrruðum okkur fram og til baka á gólfinu. Hún sagði mér að þetta væri sóun á sápunni. Barnið Sigríður skildi það ekki, þetta var jú bara sápa í íþróttarhúsinu og krafðist því frekari útskýringa. Fékk ég þá góða og einfalda útskýringu á sköttum og útsvari, sem mamma útskýrði svo fallega að í rauninni væri það "hún" sem borgaði þessa sápu. Í sturtunni eftir íþróttartíma bað ég því stelpurnar vinsamlegast að fara sparsamlega með sápuna, því mamma mín sæi um að kaupa hana. Það tók mig nokkur ár að skilja betur hvað hún meinti.
Ég er yngst, af níu systkinum. Pabbi minn á níu börn, segir að það sé þó ekki leggjandi á eina konu að eiga svo mörg börn. Mamma á sex börn, með honum pabba mínum. Pabbi átti þrjú yndisleg börn áður en hann kynntist mömmu. Systkini sem ég þekki að mínu mati því miður ekkert alltof vel, misvel og þyrstir alltaf meira og meira í að kynnast betur.
Að alast upp í stórri fjölskyldu var ekki alltaf létt og sem yngsta barnið frekjaðist ég áfram í gegnum lífið, barðist fyrir því sem ég vildi, sama hvað. Ég reyndi allt til að fá mínu framgengt - sem ég náði oft, en oft brösulega, sérstaklega þegar eldri systkinin stóðu saman til að reyna að hemja frekjuna í litlu prinsessunni.
Við fjölskyldan erum mjög opin við hvort annað, deilum reynslu, vandarmálum og gleðilegum hlutum með hvort öðru. Við grátum saman og hlæjum ennþá meira saman. En ekkert okkar er þó fullkomið, langt því frá. Foreldar mínir eru heldur ekki fullkomnir - en þau hafa alltaf gert sitt besta, og fyrir það er ég og verð alltaf svo ævinlega þakklát fyrir. Lífið þeirra, eins og margra annarra, hefur ekki alltaf verið dans á rósum og sama hvað á dynur, þá standa þau alltaf upprétt eftir - eins og klettur. Að alast upp við það að vita að sama hvað gerist, hvað sem gengur á, að þá eigi maður foreldra sem standa við bakið á manni eru forréttindi. Að eiga kærleiksríka foreldra eru yndisleg forréttindi.
Í dag er ég svo sannarlega rík. Að eiga þessa foreldra og öll þessi systkini, öll svo ólík og svo flott, er meira en hægt er að biðja um. Að geta leitað til allra þessara einstaklinga, með öll sín ólíku mál er ómetanlegt. Að eiga svona góða vini er ómetanlegt.