Monday, December 30, 2013

Elsku bestu jólin

Þetta líf er stundum svo yndislega skrítið og skrautlegt. Jólin komin og semí farin. Fór vestur yfir jólin og það var einmitt það sem ég þarfnaðist. Held ég hafi aldrei átt jafn róleg og þægileg jól, ekkert stress. Lífið síðustu vikurnar á árinu hafa verið svolítið strembnar, einkenndust af hausverk, svefnleysi, lítilli matarlist og undarlegri atburðarrás. Á Tálknafirði er og verður alltaf best að vera, þar finnur maður þetta góða, að þar eigi maður heima. Fjörðurinn góði hjálpaði mér því að hlaða dýrmæt batterí og hann hjálpaði matarlystinni svo sannarlega og jókst hún eflaust um 100 falt - sem er kannski bara ágætt.




Þegar við Ingólfur lögðum af stað suður var ég með kökk í hálsinum og stresshnút í maganum, langaði ekki að fara í "hið nýja heima". En svo þurfti lítið annað en að líta til hliðar á bílstjórann og vita að allt yrði í lagi. Þegar við vorum hálfnuð suður var hringt í Ingólf og honum boðið að sigla til Kanada, strax næsta dag. Við sátum þögul restina af leiðinni suður og hugurinn á milljón. Mér fannst tilhugsunin ekki skemmtileg, þó ég segði manninum ekki frá því og studdi hann 100% að fara. Þessi ferð dróst þó e-ð á langinn, við hjúin vorum því ennþá meira óaðskiljanleg og milljón ástarjátningar flugu á milli. Í dag kom svo í ljós að hann þurfti ekki að fara. Svolítið sérstakt, hehe.



Tvö á hlaupum

Yrsa kelurófa

Þessi sá um jólatréð

Jólapakkaflóð á leið til réttra eiganda


Erla Maren litla ljós í smá rafmagnleysi


Liu að prufa að renna sér á sleða í fyrsta skipti


Þessi blóm fengu að prufa tie dye


Síðan ég kom frá Tálknafirði og loksinsloksins og vonandi tekið upp úr töskum í síðasta skipti í smá tíma þá er mér farið að líða eins og ég eigi heima í þessari nýju íbúð.


 Hafði það of gott til að fara í tölvu yfir jólin. Vona að þið hafið haft það gott líka:)


Sigríður Etna<3

Wednesday, December 18, 2013

Fjölskylda

Þegar ég var lítil stelpa spurði ég mömmu af hverju við værum ekki rík. Hún svaraði mér að við værum mjög rík, að hún og pabbi væru ein ríkasta fjölskyldan á Tálknafirði, því þau ættu svo ótrúlega mörg börn. Ég játa það núna að ég skildi hana ekki alveg, en var þó pínu stolt af því að vera í einni ríkustu fjölskyldu bæjarins. Í dag skil ég mömmu betur, meira segja 100%. Þó ég hafi ekki alveg skilið hana í þetta skipti og önnur skipti líka, þá trúið ég alltaf öllu sem hún sagði og tók því oft mjög bókstaflega. Hún skammaði mig t.d. einhvertímann þegar ég sagði henni frá því að við stelpurnar í bekknum nudduðum endalaust af sápunni sem var í dúnknum í íþróttarhúsinu á magann á okkur og skúrruðum okkur fram og til baka á gólfinu. Hún sagði mér að þetta væri sóun á sápunni. Barnið Sigríður skildi það ekki, þetta var jú bara sápa í íþróttarhúsinu og krafðist því frekari útskýringa. Fékk ég þá góða og einfalda útskýringu á sköttum og útsvari, sem mamma útskýrði svo fallega að í rauninni væri það "hún" sem borgaði þessa sápu. Í sturtunni eftir íþróttartíma bað ég því stelpurnar vinsamlegast að fara sparsamlega með sápuna, því mamma mín sæi um að kaupa hana. Það tók mig nokkur ár að skilja betur hvað hún meinti.


Ég er yngst, af níu systkinum. Pabbi minn á níu börn, segir að það sé þó ekki leggjandi á eina konu að eiga svo mörg börn. Mamma á sex börn, með honum pabba mínum. Pabbi átti þrjú yndisleg börn áður en hann kynntist mömmu. Systkini sem ég þekki að mínu mati því miður ekkert alltof vel, misvel og þyrstir alltaf meira og meira í að kynnast betur. 


Að alast upp í stórri fjölskyldu var ekki alltaf létt og sem yngsta barnið frekjaðist ég áfram í gegnum lífið, barðist fyrir því sem ég vildi, sama hvað. Ég reyndi allt til að fá mínu framgengt - sem ég náði oft, en oft brösulega, sérstaklega þegar eldri systkinin stóðu saman til að reyna að hemja frekjuna í litlu prinsessunni.

Við fjölskyldan erum mjög opin við hvort annað, deilum reynslu, vandarmálum og gleðilegum hlutum með hvort öðru. Við grátum saman og hlæjum ennþá meira saman. En ekkert okkar er þó fullkomið, langt því frá. Foreldar mínir eru heldur ekki fullkomnir - en þau hafa alltaf gert sitt besta, og fyrir það er ég og verð alltaf svo ævinlega þakklát fyrir. Lífið þeirra, eins og margra annarra, hefur ekki alltaf verið dans á rósum og sama hvað á dynur, þá standa þau alltaf upprétt eftir - eins og klettur. Að alast upp við það að vita að sama hvað gerist, hvað sem gengur á, að þá eigi maður foreldra sem standa við bakið á manni eru forréttindi. Að eiga kærleiksríka foreldra eru yndisleg forréttindi. 


Í dag er ég svo sannarlega rík. Að eiga þessa foreldra og öll þessi systkini, öll svo ólík og svo flott, er meira en hægt er að biðja um. Að geta leitað til allra þessara einstaklinga, með öll sín ólíku mál er ómetanlegt. Að eiga svona góða vini er ómetanlegt. 


Takk


Tuesday, December 10, 2013

Með lífið að láni - raunveruleiki

Undanfarið hefur lífið verið á milljón og þá allt í einu er manni kippt niður, raunveruleikinn.

Lífið er skrítið, svo óskiljanlegt og allt í einu er maður pínulítið peð á plánetunni jörð. 

Síðasta fimmtudag var samankomin mikill fjöldi fólks við Lækinn í Hafnarfirði við minningarathöfn góðs drengs sem fallinn er frá. Elsku Ríkharður frændi. Maður skilur ekkert í þessu lífi stundum.


Það er á þessum stundum, þegar maður skilur ekki neitt og hugsanirnar streyma. Hlutir sem maður rifjar upp, hlutir sem maður var búinn að gleyma, eftirsjá, allt svo dofið og endalausar tilfinningar.

Eitt er víst og það er að ekkert er sjálfsagt í þessu blessaða lífi og maður þarf að minna sig á það reglulega. Ég þarf að eyða minni tíma í óþarfa, facebook, hringla um á netinu o.þ.h. og gera meira af því sem skiptir máli, umgangast þá sem ég elska - sýna fólki hve mikið það skiptir mig máli.

Við eigum öll svo mikið að gefa. Elskum, elskum, elskum og elskum svo meira. 

Lífið er í dag, gerum það sem skiptir máli og gerum það sem okkur finnst skemmtilegt.