Löngu kominn tími á þetta!
Þegar ég hugsa um brúðkaupið okkar Ingólfs þá verð ég einhvernveginn svo klökk og veit ekki hvar ég á að byrja. Það tekur tíma að undirbúa brúðkaup og eru alveg milljón og fimm atriði sem hugsa þarf útí.
Það tekur líka sinn tíma að melta hlutina, hugsa hvernig maður vill hafa daginn. Ég vildi gifta mig á Tálknafirði, stærsta óskin. Okkur langaði báðum að hafa brúðkaupið svona ekta "við" og ég held að það hafi tekist vel.
Það sem mér finnst mikilvægast þegar kemur að skipulagningunni er að gleyma sér ekki í smáatriðunum og horfa frekar á aðalatriðið, að fá að giftast þeim sem maður elskar. Það klúðraðist endalaust margt í okkar undirbúning, en það skipti ekki máli. Einnig gleymdist ýmsilegt á sjálfan brúðkaupsdaginn, en hverjum var ekki sama? Allavega kipptum við okkur ekki upp við neitt og fannst okkur dagurinn æ-ð-i-slegur!
Erfiðasta við undirbúninginn var samt án ef það að herra Ingólfur Ágústsson, sem aldrei verður veikur, var fárveikur allan fimmtudag og föstudaginn. Hann fór sem betur fer til læknis á föstudeginum fyrir brúðkaupsdaginn, þá kominn með streptakokka. Hann þurfti að vera á þreföldum sýklalyfjum og helst ekki vera nálægt tilvonandi eiginkonu sinni, "skemmtilegt". Mér fannst mjög erfitt að geta ekki notið undirbúningsins með honum og var maður frekar stressaður hvernig hann yrði á brúðkaupsdaginn. Hann var sem betur fer mun hressari þá;)
Til að byrja með, þá var veðrið þessa helgi óendanlega gott. Sem var mjög gaman þar sem þetta sumar var ekki upp á sitt besta veðurlega séð. Tálknafjörður sýndi öllum hvað hann hefur uppá að bjóða;)
Athöfnin sjálf byrjaði ekki fyrr en hálf 6. Því eini organistinn á svæðinu var að spila í öðru brúðkaupi þannig maður þurfti að leika af fingrum fram. Gestirnir okkar höfðu því nægan tíma til að fara í sund, skoða nánasta umhverfi og slaka á fram að athöfninni.
Ég tek nánast aldrei mark á svona hjátrúardóti og gistum við Ingólfur saman nóttina fyrir brúðkaupið. Hann hafði sig þó til hjá foreldrum sínum og ég hafði mig til hjá mömmu og pabba á Eysteinseyri, í kringum fullt af fólki, þar sem ég horfði á brúðkaupsgestina okkar leika sér útá firði á kajak, borðaði pizzu og hafði það gott.
Þegar við vorum klár var komið að skella sér í smá myndatöku út í skógi og fjörunni. Ingólfur kom og sótti mig á kagganum sem hann fékk lánaðan fyrir daginn. Ég hefði alveg eins geta notað yarisinn sem brúðarbíl, en guð minn almáttugur hvað ég var hamingjusöm að sjá hve glaður hann var með þennan bíl.
Kagginn..
Ein mynd úr myndatökunni, bíðum spennt eftir hinum.
Brúðarvöndinn gerði mamma og Ninna, mágkona pabba, á brúðkaupsdaginn. En einu blómin sem við keyptum voru gular rósir og brúðarslör.
Séra Karl V. Matthíasson gaf okkur saman og mikið rosalega sem það var gott að hafa einhvern sem maður þekkir svona vel til að sjá um það, ómetanlegt. Okkur Ingólfi langaði rosalega mikið að labba saman inn kirkjugólfið og ákváðum að slá til. Það var yndislegra en allt! Svo gaman að fá að vera saman rétt fyrir athöfnina, spennt saman og ekkert stress. Við gleymdum reyndar hnappablóminu hans Ingólfs en bræður mínir tóku á móti okkur í kirkjunni ásamt Kalla, skelltu blóminu á Ingólf, Kalli fór með bæn og svo byrjaði athöfnin.
Sæli sá um innspilið, sem var lagið Blackbird á gítar.. - hér er hægt að hlusta á það og hægt að horfa á video sem Gréta frænka Ingólfs gerði. Elska að rifja þetta upp. Það var yndisleg stund að labba inní kirkjuna og sjá allt fólkið sem maður elskar samankomið.
Tónlistin í athöfninni var einmitt eins og við vildum hafa hana. Kristín, mamma Ingólfs, byrjaði á að syngja lagið Ljós jarðar, svo sungu allir saman sálminn Dag í senn eitt andartak í einu. Gunni Óla, söngvari í Skítamórall sá svo um tónlistina (Eyþór Ingi afbókaði sig nánast á last minute) og stóð hann sig vel. Hann söng lögin Þú ert mín með Valdimar og Leiddu mig í græna laut með Stebba og Eyva. Útspilið spilaði svo Maja á píanó en það var lagið Don't stop believing, og fannst okkur það geggjað!
Eftir athöfnina stungum við Ingólfur af á meðan gestirnir fóru í félagsheimilið okkar Tálknfirðinga þar sem veislan var. Þökk sé yndislegu kríuvarpi sem staðsett er við kirkjuna og góðu veðri tók það fólk smá tíma að koma sér niður eftir, bara fyndið (allir sluppu ómeiddir haha). Við hoppuðum þó aðeins aftur í kirkjuna og tókum nokkrar myndir inní kirkjunni.
Á meðan fólk beið var hægt að fá sér appelsín og kristal í gleri, lakkrísrör og fara á nammibarinn.
Allir nutu sín á nammibarnum, ungir sem aldnir;)
Kristinn bróðir gerði ótrúlega flott ljóð sem var á nammibarnum, en barinn sló í gegn! 20 kg af sælgæti sem kláraðist auðveldlega. Nammibarinn er ekta við Ingólfur, enda miklir nammigrísir.
Svo mættu brúðhjónin og þá var skálað, en við tókum þá ákvörðun að hafa ekki áfengi í brúðkaupinu okkar. Það er nú kannski oftast ekki þannig og vorum við pínu feimin með ákvörðunina okkar en rosalega sátt þegar uppi var staðið!
Þegar við komum keyrandi að var sprengd þessi svaka skotterta bakvið runnan hjá félagsheimilinu, mamma fékk næstum hjartaáfall.
Nánast engar myndir voru teknar af skreytingunum. Það gleymdist, því miður, því þær voru æði.. mjög sveitó!
Við vorum með veifur, glærar seríur, viðarkubba, glærar krukkur með fullt af kertum og blómum
Borðin voru merkt eftir borgum sem við höfum farið til ásamt mynd af okkur í hverri tiltekinni borg. Aftan á borðmerkingunni var svo leikur sem hvert borð tók þátt í saman og átti að taka mynd af einhverju ákveðnu og hastagga #etnaogingo . Leikurinn var mjög sniðug hugmynd því við fengum svo margar myndir af random fólki saman sem þekktist ekki fyrir brúðkaupið. Myndirnar rúlluðu svo uppá vegg strax og þær voru settar á instagram svo allir gátu séð. Svo gaman að skoða yfir 200 myndir á þessu hastaggi svona eftirá:)
Hópið sá svo um matinn. En við vorum með innbakaða bleikju, heilgrillaða lambaskrokka, piparsósu, villisveppasósu, kartöflurétt og tvær tegundir af salati. Í eftirrétt vorum við með súkkulaðikökur, ís og ávaxtabakka. Við vorum mjög ánægð með matinn, þó maður kannski borðaði ekki mikið af honum, enda nóg að gera í skemmtiatriðum og ræðuhöldum, hólí smóks hvað var gaman:)
Þegar maturinn og öll atriði voru búin var farið út og hent brúðarvendi og sokkabandi..
Eftir það rölti fólk yfir í Dunhaga, sem er gamalt hús hliðiná félagsheimilinu og þar var Gunni Óla. Hann spilaði lagið Bros þitt lísir mér leið með Sjonna Brink og við dönsuðum fyrsta dansinn okkar. Síðan spilaði Gunni í nokkrar klst og skemmtum við okkur ótrúlega vel.
Við höfðum ákveðið um morguninn að fara bara svona frekar snemma heim, enda Ingólfur búinn að vera mikið veikur en ónei, það var ekki hægt. Við vorum bæði svo hamingjusöm og glöð að við vorum ekki farin fyrr en seint um nóttina.
Daginn eftir buðum við svo öllum gestunum í brunch á Hópinu sem var æðislegur. Það var ótrúlega gott að þurfa ekki að kveðja alla á laugardagskvöldinu og geta hitta alla áður en lagt var í hann suður. Þegar við vorum búin að kveðja alla ákváðum við að fara og ganga frá öllu eftir veisluhöldin. En þegar við mættum var fjölskylda mín og vinir mínir frá Tálknafirði búin að ganga frá öllu! Við vorum í losti, því það tók svo langan tíma að gera allt klárt en svo bara voula allt komið!
Við erum svo þakklát fyrir alla hjálpina sem við fengum og svo hamingjusöm hve margir sáu sér fært á að koma alla leið vestur til að fagna deginum með okkur.
Takktakktakk!