Að eignast barn...
...er dásamlega yndislegt!
Það er eitthvað sem maður heyrði nóg af þegar maður var óléttur. Núna þegar barnið mitt er komið í heiminn þá hef ég svo oft hugsað hvers vegna í ósköpunum fólk sagði manni ekki hve ótrúlega erfitt það er að eiga barn. Svo hugsa ég að ef til vill sagði fólk manni það líka, en þegar maður er óléttur þá heyrir maður ef til vill það sem maður vill heyra. Enda er það eina sem manni langar til er að barnið komi bara út - og það helst bara í gær! Biðin og eftirvæntingin er endalaus.
Litla stúlkan okkar kom í heiminn kl. 13.37, föstudaginn 21. nóvember eftir 39 vikna meðgöngu. Heil 14,5 mörk, 3660 gr, 52 cm og svona líka ótrúlega fullkomin.
Ferðalagið hennar í þennan heim er það erfiðasta sem ég hef nokkurn tíman gengið í gegnum - og á sama tíma það besta sem ég hef gert.
Meðgangan - varla hægt að ræða það, var alveg búin á því á endanum. Verkirnir voru að gera út af við mig, að mega ekki gera neitt og enginn svefn. Jákvæðni mín keyrði mig einhvernveginn í kaf. Ég beit alltof lengi á jaxlinn og vildi vera svo hörð og standa mig vel í þessu verkefni eins og öllu öðru. Ég hefði átt að vera löngu búin að biðja um hjálp við að sofa. En ég var aðeins búin að taka svefnlyf í 2 daga áður en stúlkan mætti, þrátt fyrir margar svefnlausar vikur, og þau gerðu lítið sem ekkert gagn.
Fæðingin - ég ætla ekki að ljúga. Erfiðast í lífinu - magnaðast í heimi. Ég var orðin svo spennt fyrir henni, tilhugsunin um hana var eitthvað svo rómantísk. Well, þegar allt kom til alls, þá var hún akkúrat ekkert rómantísk. Ég þakka fyrir að hafa aldrei notað vímuefni og vera þ.a.l. mikil hæna. Svefnlyfin og svo glaðloftið keyrðu mig algjörlega út úr þessum heima og ég skemmti mér konunglega seinna meir þegar mamma og Ingólfur sögðu mér frá atburðum sem áttu sér stað. Ekki misskilja mig, ég man alveg eitthvað, en ég er blessunarlega laus við að muna eftir miklum sársauka. Þetta rennur einhvernveginn allt saman í eitt. Ein besta ákvörðun sem ég hef tekið var að hafa mömmu mína hjá mér, greyið mamma. Þegar ég fann fyrir sem mestum vanmætti öskraði ég á mömmu að hjálpa mér. Ég bað svo ljósmóðirina vinsamlegast um að gera eitthvað og lét hana vita að pabbi minn væri sko OFT að hjálpa kindunum í sveitinni. Henni fannst ég ekkert sniðug blessuninni og þessi athugasemd mín vakti ekki mikla lukku. En jæja, dóttir mín kom loksins í heiminn á endanum og ég tilkynnti öllum að það væri fæddur lítill drengur. Naflastrengurinn var á vitlausum stað á vitlausum tíma. Pabbinn var þó fljótur að leiðrétta þennan misskilning, enda var hann mjög undrandi á þessum fréttum þar sem hann var handviss um að það væri stelpa á leiðinni. Við mæðgur vorum báðar alltof þreyttar til að geta kreist fram einhvern grátur. En ég vil nú samt meina að stelpan mín sé bara svo grjóthörð að þetta hættulega ferðarlag hennar hafi bara ekkert tekið á hana.
Þegar ég var aðeins búin að halda á stelpunni minni í nokkrar mínútúr þá fannst mér eins og hún hefði einhvernveginn alltaf verið í lífinu mínu. Mér finnst eins og það hafi opnast milljón nýjar hurðar í lífinu og ég horfi á það með allt öðrum augum, ólýsanleg tilfinning.
Fyrstu dagarnir - Ég bjóst við að fá barnið mitt í fangið, svífa um á bleiku skýi fyrstu dagana og jafnvel prumpa glimmeri af hamingju. Aldeilis ekki. Þessi litli kroppur minn, sem á það til að slökkva á sér við magapestir, höndlaði þetta álag enganveginn. Við fjölskyldan vorum fyrstu þrjá dagana inná LSH þar sem það leið yfir nýbökuðu mömmuna og hún gat með engu móti komið mat ofaní sig og þurfti því næringu í æð takk fyrir takk. Ég gat varla labbað af máttleysi og gat nánast ekkert gert. Þetta líkamlega álag fór svo einhvernveginn beint uppí minn yndislega haus og fór hann á svakalegan yfirsnúning þar sem ég hafði ekkert geta sofnað eftir fæðinguna. Því var ákveðið annað kvöldið okkar að taka eins dags gamla stúlkuna fram í ,,mömmó" hjá ljósunum þar sem hún hafði það ótrúlega kósí með yndislegum tvíburum (þessar mömmur þurfa greinilega sinn svefn!) Svo var dælt í mig róandi og Ingólfur sendur uppí rúm til mín til að hjálpa mér að slaka á. Ég hélt nú ekki, ég var eins og eitthvað fullvaxta naut og þurfti greinilega e-ð meira til. Allur líkaminn var dofinn, ég gat varla talað en á sama tíma gat ég haldið áfram að hugsa um allt í heiminum - stuð!
Þetta hafðist allt á endanum og ómælord hvað það var gott að koma heim. Við fengum að vera þar saman í viku en eftir það tóku við erfiðir 5 dagar á Barnaspítalanum þar sem stelpan okkar fékk sýkingu í vinstra nýrað sitt og varð mikið veik. Hún stóð sig eins og alltaf með prýði, enda alveg grjótað barn!
Í ómskoðun
Á vöknun eftir speglun
..að kúra hjá Sólný Ingibjörgu frænku - nýbúið að taka æðalegginn úr hausnum
Núna eru liðnar rúmlega 9 vikur síðan heimurinn minn breyttist og er ég búin að læra alveg ótrúlega margt síðan þá:
1. Eftir fæðingu dóttir minnar þá jókst ábyggilega ást mín til mömmu minnar um helming. Ég finn oft til pínu sektarkenndar. Ég sé eftir því að hafa ekki alltaf verið góð og ljúf við mömmu sem barn, finnst hún hafa átt það fullkomnlega skilið. Á sama tíma finn ég til með karlmönnum, að geta ekki fundið þessa sömu tilfinningu.
2. Konur eru hetjur!!! Þær eru svo duglegar, svo sterkar, svo magnaðar .. klárlega sterkara kynið!
3. Fyrstu dagarnir eftir fæðingu barns eiga konur að fá sitt næði heima, í guðanna bænum. Ég fékk endalaust svigrúm fyrstu dagana og fyrir það verð ég ævinlega þakklát. Þessi tími er svo mikilvægur til að fá að kynnast hvort öðru og læra á nýtt hlutverk.
4. Ég giftist þeim allra besta. Ingólfur, það eru varla til orð. Grjótharður en á sama tíma svo ótrúlega mjúkur. Hugsaði um konuna sína og dóttur. Vaknaði allar nætur og leyfði mömmunni að sofa eins mikið og hún vildi. Kyssti, faðmaði og baðaði konuna sína í öllum heimsins fallegustu hrósum. Hafði allt hreint, eldaði, bakaði og jafnvel prjónaði húfu á litlu stelpuna sína. Eftir dásamlega en rosalega átakalega daga lét hann allt vera svo miklu auðveldara. Hann sá til þess að stelpunum hans liði vel og kom fram við þær eins og algjörar prinsessur.
Lífið er fallegt, lífið er erfitt, lífið er gott<3