Wednesday, April 15, 2015

Raunveruleikinn - ..og að skammast sín ekki fyrir hann

Ég ætlaði mér svoleiðis að rúlla hingað inn sjóðandi heitum bloggum. Um mat, hitt, þetta, um nákvæmlega ekkert sem skiptir máli svo sem. En svo bara breyttist allt svo fljótt eitthvað - það gerist víst stundum þannig.

Ég man daginn sem Ingibjörg Etna varð 6 vikna, fhúhh mér fannst ég vera sloppin. Ég hafði einhverstaðar lesið að við 6 vikna aldur barns eru flest allir hormónar farnir úr líkama móður og því minni líkur á fæðingarþunglyndi. Þó að mér fannst hlutirnir alveg erfiðir þarna, þá var ég svo fegin og leið svo vel. Ég var svo hryllilega meðvituð um þennan "kvilla" eftir fæðingu barns þegar ég var ólétt. Ég þekki sjálfa mig mjög vel og veit hvað ég þarf að gera til að líða vel. Svefn, hreyfing, hæfilegt magn af súkkulaði og ávöxtum í bland. Allt gert til að fúnkera sæmilega - algjör rútínukona.


Dóttir mín gerir aldrei neitt sem maður heldur að hún muni gera - það sem maður ætlast til að "eigi" að gerast. Hún byrjaði á því sem 20 vikna fóstur og ætli það breytist nokkuð í bráð. Hún er mjög ákveðin lítil dama og veit hvað hún vill. Algjör félagsvera og sjúklega forvitin. Yndisleg. Það er ótrúlegt hvað barn breytir ölluuuuuu - og stundum er það svo ótrúlega erfitt.


Einn daginn ákvað sú stutta að fara í brjóstaverkfall. Mjög sjaldgjæft en já það er til. Þá er talið að börnin finni til og þetta sé þeirra leið til að sýna það, með því að hætta að næra sig. Ég reyndi allt, brjóst, pelar, hossa, labba, sprauta, gefa henni sofandi, í öllum stellingum. Ég gjörsamlega tættist. Mér fannst ég vera alein og að heimurinn væri á móti mér. Sambandið hjá okkur Etnunum var ekki gott og ég flúði alla leið á Tálknafjörð til mömmu. Reyndi að fá einhverja hjálp með þetta allt saman, smá knús og klapp á bakið. Löng saga stutt, eftir tvær vikur var verkfallið búið.

Þó að verkfallið hafi klárast þá tók samt endalaus barátta við. Það er rosalega kjánalegt að þurfa að berjast við barnið sitt til að það vilji nærast. Kjánalegt að þurfa að hossa sér á bolta eða þurfa að labba með það um gólf og syngja hástöfum til þess að það vilji drekka. Ég skammaðist mín til tunglsins (og meira segja alla leiðina til baka líka) og vildi ekki fá neinn í heimsókn til mín eða fara neitt. Það er svo ömurlegt þegar barnið manns þyngist ekki og þurfa að fara í auka vigtanir til að fylgjast með öllu.

Þessi barátta fór út í bilaðslega sjúkan kvíða hjá mér. Ég hef alltaf verið þessi stressaða týpa, en guð minn góður, kvíðinn var óyfirstíganlegur. Mér fór að kvíða fyrir öllu, ég var reið út í allt, mér fannst ég ömurleg mamma og var alveg handviss um að dóttir mín hataði mig. Ég lagði mig 200% fram en allt sem ég gerði virtist einhvernveginn vera alveg kolvitlaust og ekki það sem dóttir mín vildi. Ég grét og grátbað Ingólf um að fara ekki í vinnuna, því mér fannst ég svo alein og að ég gæti bara ekki meira.


Það er nefnilega svo ótrúlegt hvernig það fer allt í einhverja hringavitleysu. Það byrjar eitthvað vandarmál og svo bara vindir það upp á sig eins og snjóbolti sem veltur niður fjallshlíð og verður svo að einhverju ultramega snjóflóði og flóðið umbreytir öllu!

Vandamál - kvíði - svefnleysi - skömm

Hvað er hægt að gera?


Eflaust margt hægt að gera svo sem. Ég leitaði mér hjálpar og talaði og talaði og talaði. Opnaði mig um það sem ég var að hugsa, sagði hlutina upphátt - þó þeir væru fáránlegir. 

Núna er litla Ingó að verða 5 mánaða. Eftir allan þennan tíma, að kvíða fyrir hverri gjöf, sem var btw á 2 tíma fresti hjá konu sem mjólkar ekki nóg, er ekki gott. Að þurfa að borða kolvetni í tonnatali og að þurfa að drekkja sér í vatni og malti á hverjum degi er þreytandi. Að mega varla lyfta upp fjarsteringu án þess að missa mjólkina er óþolandi! Ingibjörg er með svo rosalega mikið bakflæði í vinstra nýranu og læknirinn hennar segir að hún geti auðveldlega fundið til þegar hún liggur í hinum ýmsum stellingum. Þegar hún pissar fer ekki allt pissið niður heldur upp í vinstra nýrað hennar. Vinstri nýrnaleiðarinn er eins og garðslanga, löng og víð og stundum myndist þrýstingur. Einnig telur hann að hún fái blöðrubólgu, sem betur fer ekki meira en það þó. Því ekki viljum við að hún fái sýkingu í nýrað sitt. Elsku stelpan .. svooooo dugleg og sterk.


Ég fór því vestur til mömmu fyrir páskana og fékk aftur klapp á bakið og dass af hvatningu. Núna var kominn tími á næsta skref. Skref sem mig langaði svo lengi að taka en skammaðist mín heiftarlega til að stíga. Því brjóstagjöf er einhvernveginn "da shit" í þessu samfélagi, það besta. 3 erfiðir dagar tóku við þar sem aðrir sáu um að reyna að koma pela ofaní barnið mitt. Ég hélt fyrir eyrun, reyndi að gera eitthvað annað á meðan, fór út í göngutúr. Mig langaði bara að hætta við allt saman. Mamma hélt áfram að hvetja mig og segja mér að gefast ekki upp. 

BAMMMMMMM - eftir þessa þrjá daga fór dóttir mín að elska þennan pela. Gleðin á heimilinu er ólýsanleg, hjá mömmunni, barninu og auðvitað pabbanum sem fær núna að deila þessari yndislegu stund með barninu sínu. Að gefa barninu sínu pela er ótrúlega góð tilfinning og í mínu tilviki svo miklu fallegri og betri en að gefa henni nokkurtíman brjóst. Núna get ég borðað það sem ég vil, hreyft mig og gengið í brjóstahöldurum og bolum sem henta mér betur. Ég get skroppið frá, fengið samfleytan svefn og deilt þessari "ábyrgð" með betri helmingnum mínum. Mér er farið að líða mun betur og er farin að íhuga að hætta á lyfjum sem ég byrjaði á fyrir tveim mánuðum. Lyf sem hjálpuðu mér að fúnkera og komast í gegnum hvern dag fyrir sig. 


Tilgangurinn

Tilgangurinn með þessu langa bloggi er ekki aðeins að afsaka/útskýra bloggleysið undanfarið heldur líka til að segja við konur sem eru að eignast sitt fyrsta barn þetta:

1.) Maður leitar oft að endalausum ráðum, sem er allt í lagi. En það er líka nauðsynlegt að treysta á það sem maður telur sjálfur að sé rétt. 

2.) Ekki vera svona stupid eins og ég og vera upptekin af því sem öðrum finnst. 

3.) Ef þér líður ekki vel - segðu einhverjum frá því. Segðu allt sem þú ert að hugsa upphátt (jafnvel þó það sé jafn fáránlegt og að vilja skila barninu eða að barnið þitt hati þig!)

4.) Ef þér líður ekki vel, ef þú þarft að leita þér hjálpar - ekki skammast þín fyrir það.

5.) Mundu að barnið þitt var sent til þín af ástæðu og að þú ert langbesta mamman sem barnið mun nokkurn tíma geta fengið.

6.) Dagurinn sem barnið þitt fæddist var ekki bara fæðingardagur þess. Þann dag fæddist einnig móðir. En sú fæðing tekur án efa mun lengri tíma en fæðing barnsins því það tekur tíma fyrir hjarta manns að stækka. Það tekur tíma fyrir mann að láta alla sjálfselsku og ótta hverfa. Það tekur tíma að finna og gera pláss fyrir fórnir og endalausa ást. 

7.) Þú ert að standa þig vel!

Sigríður Etna<3








4 comments:

  1. Virkilega flott blogg hjá þér Sigríður! Og flott hjá þér að segja bara frá, ég kannast við sumt af þessu þegar ég var ein heima með Hrafn fyrstu vikurnar, mér fannst ég ekki kunna neitt, og var stundum alveg að gefast gjörsamlega upp. Þekkti svo fáa í Noregi og hann gat verið svo erfiður! Vildi að ég hefði sagt fleirum frá, þá hefði mér örugglega liðið betur.

    Kv Marta

    ReplyDelete
  2. Frábær skrif hjá þér!! Pelinn er svo sannarlega ekki síðri en brjóstið, það vill gleymast í þessu fári öllu með brjóstagjöfina að hún getur farið illa með andleguhliðina hjá móðurinni.
    Mikið sem litla Etnan þín er falleg :-)
    kveðja
    Dagný Ásta

    ReplyDelete
  3. Vá, ég rambaði fyrir slysni inn á þetta blogg því ég var að leita mér að upplýsingum um brjóstaverkfall. Er með eina 6 mánaða sem er núna búin að neita mér og eiginlega pela líka í tæpa viku. Þetta er fáránlegt, bara einn daginn vildi hún ekki brjóstið. Var með barnið mitt í skoðun í dag í ungbarnavernd og viðmótið sem ég fékk þegar ég sagði barnið vera í verkfalli var eins og þetta hefði aldrei komið fyrir neina konu áður. Ég upplifði mig þvílíkt misheppnaða og eina. Er eins og þú gerðir, búin að prófa svo margt. Reyna að gefa skin to skin, liggja og m.a.s þar sem hún liggur öfugt við mig. Búin að reyna pela, stútkönnu, sprautu, skeið, bolla, það bara gengur ekkert. Og allan tímann skilur maður ekki hvað maður gerði rangt og hefur áhyggjur af því að barnið nærist ekki.

    Ég er einnig búin að ganga í gegnum mikið fæðingarþunglyndi og kvíða svo þetta er ekki beint hvetjandi fyrir mann. Manni langar einmitt ekkert út úr húsi því baráttan við að koma næringu í þennan litla kropp er rosaleg og maður vill bara vera í einrúmi heima hjá sér.

    Takk fyrir að skrifa þessi orð Sigríður Etna, takk :)

    KV. Lísa

    ReplyDelete
    Replies
    1. Vá. Þetta er einmitt ástæðan fyrir því að ég skrifaði þennan pistil á sínum tíma. Ég vonaði að hann myndi koma til með að aðstoða einhvern í sömu stöðu. Hvað sem gerist, hlustaðu á hjartað þitt. Það veit hvað er best fyrir barnið:) Ég vona að þú fáir hjálp með kvíðan og fæðingarþunglyndið. Þekki bæði af eigin raun eftir barnsfæðingu ásamt að hafa fengið áfallastreituröskun. Þetta er ekkert grín og ég er ennþá að vinna mikið í sjálfri mér. En okkur tekst það báðum á endanum:) Gangi þér vel Lísa.

      Delete