Mér finnst mjög gaman að geta boðið upp á e-ð þegar fólk kemur til mín. Þegar ég versla í matinn gríp ég oftast e-ð með mér til að eiga hér heima. En mig langar að deila einni köku sem ég á oft til í frystinum, svo auðvelt að grípa í hana. Kakan er mjög einföld, ég á oftast allt til í hana og svo finnst mér hún alveg sjúklega góð.
Ég henti fyrst í þessa köku þegar ég var fyrir vestan og mömmu langaði í e-ð gott sem væri samt ekki stútfullt af sykri og smjörlíki. Aldrei bjóst ég nú við því að fara að deila ást minni af hráköku við annað fólk - en batnandi fólki er víst best að lifa.
Uppskriftina fann ég hérna en breytti henni smá því mér fannst vera alltof yfirgnæfandi hnetusmjörsbragð af þessari. Ég geri hana svona:
Fyrst er gott að byrja á því að leggja það sem á að fara í bleyti smá áður.
Botn:
1 bolli möndlur og sesamfræ (legg það í bleyti - finnst það betra)
1 bolli kókosmjöl
1 bolli döðlur
Allt sett í matvinnsluvél eða töfrasprota (A.T.H. - Ég mæli mikið með því að skera döðlurnar fyrst ef þið notið töfrasprota. Ég hef nú þegar eyðilagt 2 stykki takk fyrir. Vel gert Sigríður Etna!). Þessu er svo þjappað í botninn
Miðjan:
1/4 bolli kaldpressuð kókosolía með bragði
1/4 bolli agave sýróp (hef líka notað blómahunang og akasíuhungang, allt saman gott)
1/2 bolli hnetusmjör
1 bolli kasjúhnetur (legg það líka í bleyti)
Ég vil samt vara ykkur við því að sleikja ekki sleifina á þessu deigi, það er rugl gott og maður endar á að borða helminginn (að minnsta kosti þeir sem hafa ekki mikinn viljastyrk!) Einnig mæli ég með því að nota plastsleikju við að dreifa þessu deigi því það er stundum svolítið erfitt og botninn vill "rifna upp".
Ofaná: Set ég brætt suðursúkkulaði. Mér finnst dekkra súkkulaði en það ekki gott, en auðvitað getur fólk gert það sem þeim þykir best:) Mamma mín kenndi mér að setja alltaf smá dropa af olíu eða smjöri ofaní brætt súkkulaði. Hún segir að það sé auðveldara að vinna með það þá - og ekki lýgur mamma mín!
Kakan er svo sett í frysti. Ég vil samt vara fólk við að fyrsta sneiðin sem ég sker alltaf af kökunni fer alltaf í eitthvað allsherjar fo**. En hinar sneiðarnar verða svo fallegar.
No comments:
Post a Comment