Dagurinn í dag var öðruvísi en aðrir dagar
Dagurinn og kvöldið fór í vettvangsnámið mitt. Fyrst var ég í Vin, en það er athvarf fyrir fólk með geðraskanir og er rekið af Rauða krossinum í Reykjavík.
Það var frábært, ég fann svo mikið traust bæði frá starfsfólki og gestum. Mér var svo sannarlega hent í djúpu laugina strax í upphafi, t.d. var ég sett ein í greinaskrif eftir aðeins nokkra klukkustunda vinnu, en sú grein mun rata í fjölmiðla bráðlega.
Í kvöld fékk ég svo að vinna í Frú Ragnheiði, en það verkefni byggir á skaðaminnkun. Frú Ragnheiður hefur þann tilgang að ná til jaðarhópa samfélagsins, t.d. heimilislausra, útigangsfólks og fíkla. Þar stendur fólki til boða að fá skaðaminnkandi þjónustu og almenna heilsuvernd, án fordóma. Verkefnið dregur úr skaðsemi lifnaðarhátta jaðarhópa, t.d. sýkingu í sárum og útbreiðslu HIV og lifrabólgu C. Þeir einstaklingar sem nýta sér þessa þjónustu fá því aðgengi að sárameðferð, hreinum nálum og sprautum.
Það var ótrúlega gott að finna hvernig ólík reynsla sem maður býr yfir nýttist manni í dag. Það að búa yfir þolinmæði, að vera opin og góður hlustandi voru allt topp verkfæri í dag.
Ég var smá stressuð fyrir þessum degi því ég vissi ekki hvernig ég myndi bregðast við því sem ég þekki kannski ekkert alltof vel. En ég hitti allskonar fólk í dag, frá ca. 16-80 ára. Ég get sko alveg sagt að ég kom sjálfri mér skemmtilega á óvart, hve lítið fólk náði að hreyfa við mér, sama í hvernig ástandi það var í. Fólkið hefði alveg eins bara geta verið með kvef.
Mikið rosalega sem það er gott fyrir mann að fara út fyrir þægindarammann sinn, prufa nýja hluti og kynnast öðru fólki. Ég fann svo sannarlega hvernig ég varð víðsýnni í dag.
No comments:
Post a Comment