Thursday, July 11, 2013

Barbie-girl

Um daginn var litla frænka mín að leika sér í Barbie. Hún gerir það nú ekki oft, enda er hún klárlega meira Playmo-barn. Mín átti svolítið erfitt með að hemja sig í sófanum, horfandi á hana leika sér. Var ekki lengi að skella mér á gólfið og byrja að klæða dúkkurnar í. Þá sagði sú stutta við mig að henni langaði að eiga meira Barbie. Það gladdi mitt hjarta og ég sagðist geta gefið henni Barbie næst í afmælisgjöf.

Mér finnst rosalega fáar stelpur leika sér með Barbie í dag og maður heyrir stundum af því hve slæm 'fyrirmynd' hún sé fyrir litlar stelpur. Þegar ég var barn (og okay unglingur, there I said it!) þá lék ég mér væga sagt mjög mikið með Barbie. Ég átti alveg óhemju mikið af barbiedóti og mér þótti rosalega vænt um það. Við vinkonurnar gátum leikið okkur heilu dagana í hinum ýmsum leikjum. Ég man eftir því að þegar það var kolvitlaust veður og bærinn næstum ófær þá skutluðu foreldrar þeirra þeim heim til mín, svo við gætum leikið okkur saman í Barbie. 

Leikirnir okkar voru misgáfulegir og oft á tíðum mjög dramatískir. Þeir innihéldu oft miklar systraerjur, en þær systur áttu stundum ættleidd börn sem fundust á götunni, á meðan sumar gátu ekki eignast börn. Eiginmenn dúkkanna hjálpuðu okkur að "ala upp" allan barnaskarann, en mennirnir voru þó miserfiðir. Lífið var ekki alltaf auðvelt hjá dúkkunum okkar og inná milli þess sem þær giftu sig (sem var oft!) þá voru stundum jarðarfarir og jú oft héldum við líka rokktónleika. Stundum klæddum við dúkkurnar okkar í sundboli og fórum með þær í bað eða klæddum þær í þykk og góð útiföt, þá aðallega lopapeysur sem Særún frænka mín prjónaði á þær, skelltum á þær skíði og fórum út í snjóinn og bjuggum til "barbiesnjóhús".



Mér fannst Barbiedúkkurnar mínar fallegar, en þó misfallegar. Ég átti uppáhalds dúkku og já, hún var mjó, með stór brjóst, slétt andlit, glansandi hár og fallega máluð. En aldreialdreialdrei man ég eftir því að hafa hugsað að ég vildi vera eins og hún. Kannski af því að Barbie var fullorðin, og ég bara barn. Ég bar hana heldur aldrei saman við mömmu mína eða aðrar fullorðnar konur, því mamma mín var alvöru og Barbie var það ekki. En ég pældi mikið í einu, það var að barbiebörnin gátu aldrei leitt foreldra sína, því ef maður teygði hendina á börnunum upp og lét hendina á fullorðnabarbie alveg niður þá var ekki neinn möguleiki á að hendurnar gætu mætt hvor annarri. Mér fannst ekki eðlilegt að þeir 'fullorðnu' þyrftu alltaf að halda á börnunum sínum og ég man eftir að hafa hugsað að þetta væri eitthvað skrítið, dúkkurnar væru ekki rétt hannaðar, að þær væru ekki fullkomnar.

En að mínu mati þá er Barbie ekki fyrirmynd, þegar maður er barn þá eru foreldrar manns fyrirmyndir. Barbie er plast, leikfang, og eftir margarmargarmargar klukkustundir í Barbie þá held ég að ég hafi ekki hlotið neinn "skaða", heldur akkúrat öfugt. Við vinkonurnar komum dúkkunum okkar í gegnum ansi margar erfiðar stundir saman í leikjunum og mikið drama. Mér finnst Barbiedúkkur vera eins og flest önnur leikföng, þær eru leikföng fyrir ímyndunarafl og eru ekki raunverulegar. Ég held að þetta 'Barbie-er-ekki-fyrirmynd'-vandarmál sé ekki hjá dúkkunni sjálfri heldur hjá þeim sem reyna að gera leikfangið að meira en leikfangi.

2 comments:

  1. Rakel Arna GuðlaugsdóttirJuly 11, 2013 at 8:07 AM

    Ég á ennþá Barbie dót frá þér og ég man hvað mér þótti mikið vænna um það því Sigríður stóra frænka átti það og ÉG þurfti að passa það :)

    ReplyDelete
  2. Those were the days. Ég er sammála, mér fannst barbídúkkurnar alveg fallegar, en ég hugsaði aldrei að ég vildi vera eins og þær þegar ég yrði stór... maður fattaði alveg að þetta væri ekki "alvöru" kona, eða eins og "alvöru" konur eiga að vera.
    Bloggið er 1 árs á laugardaginn, pælum aðeins í því :)

    Kv.Mæja

    ReplyDelete