Tuesday, February 23, 2016

Allur tilfinningaskalinn

Síðustu vikur eru búnar að vera svo sérstakar og ekkert rosalega skemmtilegar. En lífið getur ekki alltaf bara verið skemmtilegt, það er allskonar.

Vikuna eftir "súpuslysið" var ég eins og sprungin blaðra. Ég fékk smá áfall og var algjörlega búin á því líkamlega og andlega. Ég gerði lítið annað en að horfa á þætti, bíómyndir, sofa og sinna Ingibjörgu. Leið pínu eins og einhverjum draugi sem svifi bara um. Skugginn af sjálfri mér. 

Vikan þar á eftir var skreytt með dassi af vanmætti og stressi. Ingibjörg fór nefnilega í aðgerð 8. febrúar. AðgerðiN með stóru A og N því þetta var það sem maður hafði vitað að væri í vændum síðan litlan var 20 vikna fóstur. Ég var ekki bara stressuð fyrir aðgerðinni heldur var ég líka svo stressuð yfir því að barnið mitt myndi veikjast, að hún kæmist því ekki í aðgerðina og við þyrftum að bíða ennþá lengur. Mig langaði bara að klára þetta af eitt skipti fyrir öll.

En litla Etna fór í aðgerðina. Dóttir okkar stóð sig eins og hetja og á 3 klukkustundum léttist barnið um 500 gr takk fyrir. Það er slatti fyrir barn sem vegur 10 kg. Hún átti rosalega erfitt á vöknun, leið ekki vel og kúgaðist svolítið. Eftir 5 klukkutíma á vöknun fórum við yfir á Barnaspítala. Þar áttum við að vera í 1-2 daga en þeir urðu svo 4. Ingibjörg Etna fékk hita og átti erfiðara með að jafna sig en búist var við. Fyrstu tvo dagana var hún í lyfjamóki. Hina dagana var hún bara pirruð. 



(barnið gat varla haldið haus á vöknun en hún tók ekki annað í mál en að fá að halda sjálf á frostpinnanum, haha!)

 Ég hlakkaði svo til að koma heim en það tók ekkert mikið skárra við. Allavega ekki fyrstu 10 dagana. Barnið var brjálað, sérstaklega á kvöldin og næturnar. Hún öskraði stundum stanslaust til 05.00 á næturnar ooooog vaknaði svo kannski 07.00 á morgnana. Svo var hún ómöguleg allan daginn auðvitað og vildi ekki borða. Einn sólahringinn pissaði hún nánast engu og því þýddi það tvær aukaferðir uppá Barnaspítala í frekari rannsóknir, ómanir o.fl.


En þetta lítur allt vel út núna og ef hún veikist ekkert þá verður næsta skref ekki tekið fyrr en í haust, en þá fer hún í tvær rannsóknir.



Það er samt svo ótrúlegt að þegar maður er svona þreyttur þá nýtir maður allan lausan tíma til að hvíla sig og sofa. Líkaminn vill bara orku og það bara helst í gær. Þannig maður úðar í sig nammi og einföldum kolvetnum. Maður hreyfir sig ekkert og því verður líðan manns bara engan veginn nógu góð. Leiðinlegur vítahringur.




Það er því margt búið að ganga á. Ég kem sjálfri mér alltaf meira og meira á óvart. Ég er mun sterkari en ég hefði búist við. Maður klárar einhvernveginn þau verkefni sem maður fær í hendurnar.


EN .. ..það getur enginn verið sterkur endalaust..
..og stundum verður maður að leyfa sér að vera ekki sterkur.


Ég áttaði mig sem betur fer á því nokkrum dögum fyrir aðgerðina hjá Ingibjörgu. Viðurkenndi vanmátt minn. Ég ákvað því að biðja mömmu og pabba um að koma suður og vera með okkur. Ólýsanlegt. Ég fann ekki þetta tómarúm sem ég finn svo oft inní mér þegar ég er með Ingibjörgu inná þessum blessaða Barnaspítala og það var svo gott að fá einhvern til að létta undir með sér. Takk. 

algjöööööör afastelpa


Ingó litla átti erfitt með að halda tungunni inni út af öllu þessu morfíni, haha.

Það hlaut svo kannski að koma að því? Miðvikudaginn í síðustu viku vaknaði ég alveg ótrúlega þung á mér. Mér leið illa í hjartanu. Ég ákvað þess vegna að ég ætlaði bara ekkert að vera sterk þann dag. Ég leyfði sjálfri mér að vera neikvæð, reið og fúl. En ég leyfi mér þessar tilfinningar mjögmjögmjög sjaldan gagnvart veikindunum hennar Ingibjargar og hugsa svo oft að það eru fullt af öðrum börnum sem hafa það verr en hún. En þessi dagur var öðruvísi. Þegar hún svaf, þá grét ég uppí rúmi. Ég leyfði mér að finnast í smástund að þetta verkefni væri ósanngjarnt gagnvart Ingibjörgu og að hún ætti það ekki skilið. Ég leyfði mér allar tilfinningar á tilfinningaskalanum. Það var ólýsanlega gott. Klukkan 17.00 þann dag fór ég í sturtu og ákvað að hætta að vera leið. 




Það er gott að vera ekki fullkomin.
Það er gott að vera heiðarlegur.
Það er gott að geta tjáð tilfinningar sínar á opinskáan og einlægan hátt.

Við erum öll bara mannleg og að reyna okkar besta. 

3 comments:

  1. Þú ert dásamleg elsku systir og þið öll :-*

    ReplyDelete
  2. Það er ótrulegt hvað er lagt mikið á þennan litla kropp og ykkur foreldrana. Þið eruð hetjur.
    Hugsa til ykkar <3

    ReplyDelete